- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
Markmið
Á öllum vinnustöðum eru í gildi ákveðnar reglur um viðveru. Sama á við í Flensborgarskólanum. Til þess að ná árangri í námi þarf að stunda námið af kostgæfni og sækja allar kennslustundir eins vel og kostur er.
Skólasókn
Nemendur mæta stundvíslega í allar kennslustundir og próf.
Það telst seinkoma (S) ef nemandi er ekki mættur þegar kennari er búinn að skrá viðveru í INNU. Fjarvist (F) úr einni kennslustund gildir sem eitt fjarvistarstig, seinkoma gildir hálft fjarvistarstig.
Nemendur bera ábyrgð á eigin mætingu. Þeir geta fylgst með stöðu sinni í Innu og eiga að þekkja þær reglur sem gilda um skólasókn. Ef nemendur vilja gera athugasemdir við fjarvistaskráninguna þá koma þeir athugasemdum innan viku til viðkomandi kennara.
Nemendur eiga að sinna öllum persónulegum erindum sínum utan skólatíma. Sé það ekki unnt og erindið brýnt og ítrekað er nemendum og foreldrum eða forráðamönnum bent á að óska eftir leyfi rafrænt í Innu. Aðstoðarskólameistari sér um allar leyfisumsóknir.
Veikindi
Veikindaforföll skal tilkynna rafrænt í Innu samdægurs. Rafrænar tilkynningar frá foreldrum/forráðamönnum teljast fullnægjandi og frekari staðfesting er óþörf. Ef nemandi tilkynnir sjálfur veikindi getur foreldri/forráðamaður staðfest þau á þar til gerðu eyðublaði sem fæst á skrifstofu skólans eða þau staðfest af lækni.
Ef nemandi gerir grein fyrir öllum veikindum þá tryggja vottorð að hann fái ekki lægri einkunn en 9 fyrir skólasókn.
Leyfi
Hægt er að sækja um leyfi rafrænt á Innu, gegn staðfestingu foreldris/forráðamanns eða umsjónarmanns ferðar t.d. með keppnisliði, vegna eftirfarandi:
Æfingar/leitir á vegum björgunarsveita
Fjarvera vegna dauðsfalla í nánustu fjölskyldu
Ferðir/æfingar á vegum landsliða í íþróttum
Námskeið/námsferðir t.d. á vegum skiptinemasamtaka
Fjölskylduferðir (af sérstöku tilefni) séu þær staðfestar af foreldri
Tekið skal fram að ekki eru veitt leyfi vegna skemmtiferða.
Athugið að kennarar veita ekki leyfi. Öll leyfi eða vottorð eru færð af skrifstofu eða aðstoðarskólameistara. Leyfi eru að hámarki veitt í 3-5 daga.
Nemendum eru ekki reiknaðar fjarvistir vegna viðurkenndra ferða á vegum skólans. Mikilvægt er að nemendur upplýsi kennara sína um fjarveru vegna viðurkenndra ferða og verði í sambandi við kennara um námstilhögun vegna leyfis.
Undanþágur frá mætingareinkunn
Nemendur með ungt barn geta sótt um undanþágu frá mætingareinkunn.
Nemendur, sem eiga við sjúkdóma að stríða eða búa við aðstæður sem geta haft áhrif á skólasókn þeirra, leggja fram viðeigandi gögn til nemendaþjónustu eins fljótt og auðið er. Skólinn gætir réttar langveikra nemenda og hefur nemendaþjónusta milligöngu í slíkum málum af hálfu skólans. Stöðu þeirra þarf að meta með hliðsjón af skólasókn og námsárangri.
Vera kann að heilsa og aðstæður leyfi það ekki að nemandi sé í fullu námi. Þegar nemandi er mikið fjarverandi vegna veikinda áskilur skólinn sér rétt til að meta hvort hægt sé að heimila fullt nám, skert nám eða hvort viðkomandi nemandi taki sér tímabundið eða varanlegt leyfi frá námi við Flensborgarskólann.
Einkunnir fyrir skólasókn
Einkunn er gefin fyrir skólasókn og birtist hún í námsferli nemenda og á útskriftarskírteini. Skólasóknareinkunn er reiknuð á eftirfarandi hátt:
Skólasókn Skólasóknareinkunn
98% - 100% 10
95% - 97% 9
92% - 94% 8
88% - 91% 7
83% - 87% 6
82% og undir Fall - 4
Óviðunandi skólasókn
Skólasókn nemenda er skoðuð samhliða miðannarmati. Nemendur með mætingaprósentu undir 83% fá formlega áminningu. Ef nemandi bætir ekki mætingu sína á hann ekki áframhaldandi skólavist vísa.
Annað
Þrisvar á önn eru fjarvistayfirlit send til nemenda og forráðamanna nemenda yngri en 18 ára.
Nemendur og kennarar geta skotið vafaatriðum til úrskurðar skólameistara.
Uppfært í mars 2022