Heilsueflandi framhaldsskóli

Flensborgarskólinn er heilsueflandi framhaldsskóli
 
Flensborgarskólinn var fyrsti framhaldsskólinn á landinu til að innleiða hugmyndafræði Heilsueflandi framhaldsskóla og er það gert í nánu samstarfi við Lýðheilsustöð/Landlæknisembættið. Samstarfið hófst formlega vorið 2009 og var sett á landsvísu á Flensborgardaginn, 1.október 2010.
Í kjölfarið fylgja 31 framhaldsskóli sem ýmist eru að hefja sitt undirbúningsár eða komnir inn á fyrsta ár.


Hér fyrir neðan eru eru margvíslegar upplýsingar og efni tengt verkefninu heilsueflandi framhaldsskóla. 

Heilsustefna

Heilsuefling í Flensborgarskólanum er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemendasamfélagsins. Það miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Það er stefna skólans að tryggja eins góða og heilsusamlega vinnuaðstöðu og unnt er jafnfram því sem nemendur og starfsmenn eru hvattir til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðan.
Meginmarkmið: að marka stefnu um hollustuþætti, heilbrigði, aðbúnað og öryggi þeirra sem nema og starfa í Flensborgarskólanum, stefnu sem er ætlað að hafa áhrif á allar daglegar venjur og starf í skólanum.
 
Flensborgarskólinn setur sér fimm undirmarkmið er lúta að aukinni hreyfingu, forvörnum gegn streitu og andlegu álagi, hollu matarræði, áfengis-,tóbaks- og vímuefnavörnum ásamt því að stuðla að öryggi í skólastofnuninni.
 
Það eru markmið Flensborgarskólans að:
 
1. Hvetja til aukinnar hreyfingar meðal starfsmanna og nemenda skólans og efla meðvitund um gildi hreyfingar fyrir andlega og líkamlega heilsu.
 
Það fæst m.a. með því að:
  • skólinn standi fyrir og stuðli að þátttöku í almennri hreyfingu nemenda og starfsmanna s.s. framhaldsskólakeppnum og Lífshlaupi
  • staðið sé fyrir sjálfstæðum viðburðum a.m.k. einu sinni á önn svo sem vorgöngu, fjallaferð eða innanskólamóti af einhverjum toga
 
2. Skólastarfið taki mið af því að hlúð sé að andlegri heilsu nemenda og starfsmanna skólans og að allir leggi sitt af mörkum til að efla góðan starfsanda í skólanum.
 
Það fæst m.a. með því að:
  • á heimasíðu skólans sé aðgengilegt efni um leiðir til að leita sér aðstoðar ef á þarf að halda á sviði andlegrar heilsu
  • fræðslu sé miðlað um gildi andlegrar heilsu
 
3. Stuðla að aukinni neyslu á hollum mat og auknum skilningi á mikilvægi þess að nemendur og starfsmenn tileinki sér hollar matarvenjur.
 
Það fæst m.a. með því að:
  • boðið sé uppá fjölbreytt og hollt fæði í mötuneyti
  • að aðgengi að drykkjarvatni sé gott
  • þegar skólinn býður uppá veitingar á fundum þá taki þær mið af fjölbreytni og hollustu
 
4. Miðla upplýsingum um skaðsemi áfengis, tóbaks og annarra vímuefna til nemenda og starfsmanna ásamt því að gera upplýsingum um hvaða leiðir eru færar ef fólk vill hætta notkun þess.
 
Það fæst m.a. með því að:
  • á vef skólans sé aðgengilegar upplýsingar um hvert sé hægt að leita eftir aðstoð sérfræðinga og stuðningsaðila kjósi fólk að leita sér aðstoðar vegna notkunar á tóbaki, áfengi eða öðrum vímuefnum
  • því sé fylgt fast eftir að skólahúsnæðið og lóð hans sé laust við alla notkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna
 
5. Tryggja öryggi í skólahúsnæðinu og að öryggisáætlun skólans sé framfylgt.
 
Það fæst m.a. með því að:
  • rýmiæfing verði haldin á hverri önn
  • öryggis- og áhættumati sé viðhaldið og leitað sé úrbóta hið fyrsta þegar þörf er á
  • bjóða uppá skyndihjálpanámskeið

 

Markmið

 
Með því að innleiða hugmyndafræði Heilsueflandi framhaldsskóla er ætlunin að veita nemendum og starfsfólki tækifæri og aðstæður til að tileinka sér holla og heilbrigða lifnaðarhætti með jákvæðum skólabrag og heilsueflandi umhverfi. Heilsuefling í Flensborgarskólanum er sameiginlegt verkefni stjórnenda, starfsmanna og nemendasamfélagsins.
 
Skoða veggspjald með markmiðunum skólans.
 
Næring
 
Í Flensborgarskólanum skal ávallt vera hollur valkostur í boði hvað varðar næringu.
Marmiðið er að stuðla að aukinni vitund um gildi næringar fyrir vellíðan og velgengni.
Það verður gert t.d. með:
  • því að í mötuneyti er boðið uppá hollan valkost í samræmi við Handbók um næringu í framhaldsskólum
  • fræðslu og uppákomum sem vekja fólk til umhugsunar um næringu.
Hreyfing
 
Í Flensborgarskólanum er hvatt til hreyfingar og heilsusamlegs lífernis.
Markmiðið er að auka vitund um gildi hreyfingar fyrir heilsu, líðan og árangur auk þess að hvetja Flensborgara til að gera hreyfingu að hluta af daglegum lífsstíl.
Það verður t.d. gert með:
  • því að Flensborgarar eru hvattir til að hreyfa sig markvisst og reglulega, skólinn stendur fyrir hreyfiviðburðum og kennarar eru meðvitaður um nýtingu nærumhverfis í kennslu.
  • fræðslu og viðburðum sem stuðla að aukinni hreyfingu meðal Flensborgara.
 
Geðrækt
 
Í Flensborgarskólanum leggja allir sitt af mörkum til að efla góðan skólabrag.
Markmiðið er að samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu. Skólabragurinn endurspeglar virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins og unnið er gegn fordómum og stuðlað að jafnrétti. Hver einstaklingur fær tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum
Það verður t.d. gert:
  • með því að Flensborgarar eru reglulega minntir á mikilvægi jákvæðra samskipta.
  • með fræðslu, þjálfun og vitundarvakningu um gildi geðræktar, það verður gert t.d. í kennslustundum og með uppbroti á skólastarfi.
  • því að miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsfólks um hvert sé hægt að leita ef vandi steðjar að.
Lífsstíll
 
Í Flensborgarskólanum gefst nemendum og starfsfólki tækifæri til að tileinka sér hollan og heilsusamlegan lífsstíl.
Markmiðið er að hvetja Flensborgara til að taka upplýsta og ábyrga ákvörðun um hvaða lífsstíl þeir kjósa sér.
Það verður gert t.d. með:
  • fræðslu og uppákomum um heilsutengdar forvarnir
  • skólastarfi sem styður jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl.

Verkefnið 

Flensborgarskólinn var fyrsti framhaldsskólinn á landinu til að innleiða hugmyndafræði Heilsueflandi framhaldsskóla og er það gert í nánu samstarfi við Lýðheilsustöð/Landlæknisembættið. Samstarfið hófst formlega vorið 2009 og var sett á landsvísu á Flensborgardaginn, 1.október 2010. Í kjölfarið fylgja 31 framhaldsskóli sem ýmist eru að hefja sitt undirbúningsár eða komnir inn á fyrsta ár.
 
Flensborgarskólinn hefur lengi haft þá stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Hugmyndafræði um heilsueflandi framhaldsskóla fellur mjög vel að þeirri sýn og veitir aukin tækifæri til að efla tengslin við nærsamfélagið og auka þannig stuðning og tækifæri nemenda og starfsfólk til að tileinka sér jákvæðan og heilbrigðan lífsstíl. Fjölmargar rannsóknir styðja þessa nálgun enda sýna þær að heilsueflandi umhverfi bætir líðan nemenda, stuðlar að bættum námsárangri og dregur úr brottfalli.
 
 
Hvers konar verkefni er um að ræða?
Verkefnið sem um er að ræða býður upp á heildræna stefnu í forvarna- og heilsueflingarmálum sem gerir framhaldsskólum kleift að marka sér skýra stefnu, skerpa á aðgerðaráætlunum og forvörnum og jafnframt mynda á hagnýtan hátt skýran ramma utan um þennan almenna málaflokk. Verkefnið hefur verið þróað í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið, undir formerkjum HoFF samstarfsins, en það er samstarfsverkefni mennta- og menningarmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Lýðheilsustöðvar, Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) og Hagsmunaráðs íslenskra framhaldsskólanema (HÍF).
 
Af hverju þessi nálgun?
Áherslur í heilsueflingu og forvörnum hafa þróast í áranna rás. Reynsla og rannsóknir hafa smám saman fært okkur frá innrætingu yfir í upplýsingagjöf, þaðan yfir í sjálfsstyrkingu og svo loks yfir í heildrænni og almennari nálgun. En samantektir á rannsóknum frá ýmsum löndum sýna okkur nú að forvarnir sem virka best eru þær sem nýta sér heildræna nálgun, sbr. hugmyndafræði Heilsueflandi skóla.
 
Meðal þeirra sem sinna heilsueflingu hefur verið vaxandi skilningur á því að nauðsynlegt sé fyrir skólasamfélagið að stofna til nýrra og fjölþættari tengsla, og jafnframt milli ólíkra faghópa, til að takast á við félagsleg og fjárhagsleg mál sem lúta að heilsufari. Skólarnir þurfi að setja sér stefnu í heilsueflingarmálum þannig að kennarar, foreldrar, nemendur og aðrir sem taka þátt í skólastarfinu hafi í höndum traustar leiðbeiningar og geti gripið til aðgerða í heilsueflingarmálum. Slík stefna getur orðið til þess að skólarnir ráði betur við ýmis heilsu- og félagsleg málefni, efli námsgetu nemenda og bæti skólastarfið í heild sinni. Rannsóknir benda til þess að þegar skólum tekst vel til við að setja sér stefnu og framkvæmdaáætlun í heilsueflingarmálum geti það haft verulegan áhrif á líf og starf alls ungs fólks sem nemur og hrærist innan skólanna, sem og starfsfólksins.
 
Í verkefninu er m.a. leitast við að samtvinna stefnu og starfsemi Heilsueflandi framhaldsskóla öðru íþrótta-, forvarna-, heilbrigðis- og menntastarfi í samfélaginu. Samhliða verður unnið að því að efla tengsl við foreldra og grenndarsamfélagið. Könnun á viðhorfum og hegðun nemenda í byrjun skólaárs 2010 er til grundvallar í árangursmati, en fyrsta skrefið í stefnumótun skólans er þróun gátlista, markmiða, aðgerðaráætlunar og tengslanets.
 
Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl, en eitt viðfangsefni er tekið fyrir á hverju ári. Því eru viðfangsefnin jafn mörg og námsár flestra framhaldsskólanema (en sameina má málaflokka í samræmi við styttri námsbrautir). Þegar skólinn hefur uppfyllt lágmarkskröfur gátlista Heilsueflandi framhaldsskóla öðlast hann bronsviðurkenningu, en með tímanum getur hann fengið silfur og gull, þ.e. ef hann uppfyllir fleiri atriði gátlistanna. Gátlistarnir eru að hluta til ákveðnir fyrirfram með tilliti til þess sem verkefnið felur í sér, en jafnframt að hluta til unnir í samvinnu við skólann (þ.e. stýrihóp verkefnisins í skólanum) s.s. vegna umhverfis, aðstæðna og áherslna skólans.
 
Mikilvægt er að taka fram að stefna þarf að vera til staðar í öllum málaflokkum og því ýmis vinna í gangi öll árin, en einn málaflokkur er hinsvegar í brennidepli á hverju skólaári og því sýnilegastur í skólastarfinu. Þessir fjórir málaflokkar munu svo taka við hver af öðrum um ókomna tíð - og verkefnið endar því ekki fyrr en skóli annað hvort ákveður að hætta þátttöku eða uppfyllir ekki lengur lágmarkskröfur um Heilsueflandi framhaldsskóla.
 

 

Núvitund

Af hverju núvitund í skólastarfi? Núvitund (mindfulness) felst í því að veita lífi okkar og líðan á hverri stundu vakandi athygli með opnum huga, forvitni og án fordóma. Rannsóknir sýna að ástundun núvitundar bætir geðheilsu, dregur úr kvíða, streitu og endurteknu þunglyndi. Rannsóknir á ungmennum sýna að ástundun núvitundar hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, félagsfærni, tilfinningalíf og líðan þeirra.

Hér má finna hlekki í núvitundaræfingar, mislangar eftir hentugleika:

Happapp

Headspace

Calm

Samgöngustefna

Flensborgarskólinn í Hafnarfirði er heilsueflandi framhaldsskóli og liður í lífsstílsþema er að skólinn vinnur að því að vera vistvænn skóli. Í Flensborgarskóla gefst nemendum og starfsfólki tækifæri til að tileinka sér hollan og heilsusamlegan lífsstíl. Megin markmið lífsstílsþema er að hvetja Flensborgara til að taka upplýsta og ábyrga ákvörðun um hvaða lífsstíl þeir kjósa sér.
 
Samgöngustefna Flensborgarskólans er hluti stefnu hans um Heilsueflandi framhaldsskóla. Markmið samgöngustefnu skólans er að hvetja Flensborgara, nemendur og starfsfólk, til að nýta sér vistvænar samgöngur og tileinka sér heilbrigðan lífsstíl. Með því vill skólinn stuðla að samfélagslegri ábyrgð hlutaðeigandi aðila varðandi umhverfismál, sjálfbærni og vistvæns lífsstíls.
 
Leiðir að markmiði:
 
  • Skólinn gerir samgöngusamninga við þá starfsmenn sem nota vistvænan samgöngumáta.
  • Greiðir 5000 króna styrk á önn til þeirra starfsmanna sem gera samgöngusamning við skólann um að nota vistvænan ferðamáta (strætó, hjól eða göngu) í ferðir til og frá vinnu a.m.k. 3 sinnum í viku.
  • Ef starfsmenn sem nota vistvænan ferðamáta þurfa nauðsynlega að ferðast í einkaerindum á vinnutíma t.d. vegna óvæntra veikinda barna þá mun skólinn endurgreiða viðkomandi fyrir útlögðum leigubílakostnaði.
  • Nemendur sem hjóla eða ganga í skólann geta fengið eina einingu á önn. Skráð er niður hversu oft nemendur koma gangandi eða hjólandi. Ef þeir gera það a.m.k. þrisvar sinnum í viku að meðaltali yfir önnina fá þeir einingu.
  • Skólinn mun standa fyrir fræðslu til starfsfólks og nemenda um vistvænan ferðamáta og vistvænan lífsstíl a.m.k. einu sinni á ári það ár sem lífsstílsþema er.
  • Nemendur og starfsmenn sem nýta einkabíla eru hvattir til að kynna sér ráðleggingar um umhverfisvænan akstur. Kynningarefni er aðgengilegt á heimasíðu skólans undir Heilsueflandi framhaldsskóli.
  • Allir nýnemar fara í HÁMARKs-áfanga þar sem sérstaklega er fjallað um umhverfismál og sjálfbærni.
  • Á heimasíðu skólans er hlekkur sem vísar á www.straeto.is og hvatt til þess að nemendur og starfsfólk nýti sér strætó app í síma sína.
  • Göngu- og hlaupaleiðakort er sýnilegar á korti við skólann.
  • Unnið er að því að setja upp yfirbyggt hjólaskýli á skólalóðinni.
  • Starfsfólki gefst kostur á að fara í sturtu í húsnæði skólans. Fyrir nemendur er aðstaða til að hengja upp útiföt.

Verkáætlun HEF

Verkáætlun HEF 2023-2024

Verkáætlun HEF 2022-2023

Verkáætlun HEF 2020-2021

Verkáætlun HEF 2019-2020

Samantekt HEF 2019 - 2020

Við erum Flensborg - HEF myndbönd

Árið 2020 gerði Flensborgarskólinn 10 myndbönd sem öll tengdust heilsu- og hollráðum HEF-verkefnisins. Myndböndin voru birt á heimasíðu skólans, en einnig á samfélagssíðum skólans. Tilgangurinn var að senda hvatningarorð til nemenda og starfsfólks í miðjum heimsfaraldri. Árni Stefán Guðjónsson og Ósk Guðmundsdóttir, sem þá voru verkefnastjórar HEF, leikstýrðu myndböndunum, Víðir Björnsson kvikmyndagerðarmaður sá um myndatöku og alla eftirvinnslu. Framleiðandi: Flensborgarskólinn í Hafnarfirði.  

Viðurkenningar

Flensborgarskólinn hefur tvisvar sinnum hlotið gullepli HEF verkefnisins, í fyrra skiptið var það árið 2011 þegar Katrín Jakobsdóttir þáverandi menntamálaráðherra afhenti skólanum gullepli fyrir að vera tilraunaskóli og með leiðandi starf fyrir HEF verkefnið. Seinna eplið hlaut skólinn árið 2020 fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf.