Afmæli skólans og heimsókn forseta Íslands

Flensborgarskólinn fagnar í dag 143 ára afmæli en líka þeim áfanga að á þessu ári eru 50 ár síðan fyrstu stúdentarnir voru brautskráðir frá skólanum. Dagurinn var auðvitað vel nýttur með uppbroti í skólastarfinu en formleg afmælisdagskrá fór fram frá kl. 11 á sal skólans. Nemendur byrjuðu á að sitja erindið ,,Satt eða svefnmýta?" þar sem þær Erla og Inga Rún Björnsdætur, sérfræðingar Betri Svefns, ræddu algengar svefnmýtur og hvaða svefnráð virka best fyrir góðan og endurnærandi svefnÞær svöruðu einnig spurningum nemenda varðandi æfingar, orkudrykkjaneyslu og fleira sem þau höfðu áhuga á að vita.

Erla Sigríður Ragnarsdóttir, skólameistari, ávarpaði nemendur og starfsfólk og minnti á mikilvægi þess að halda góðu starfi Flensborgarskólans á lofti. Hún afhenti um leið styrk til Píeta samtakanna en Flensborgarhlaupið var haldið í þeirra þágu í september síðastliðnum. Guðrún Birna Le Sage tók við styrknum fyrir hönd Píeta samtaka. Guðmundur Árni Stefánsson ávarpaði samkomuna fyrir hönd 50 ára stúdenta og sagði frá skólastarfinu eins og hann upplifði það. Nokkrir úr hópi 50 ára stúdenta hélt einnig myndlistarsýningu innan skólans í tilefni dagsins.

Sérstakur gestur afmælisins var Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, en hún ávarpaði hópinn og vígði útikennslustofu sem komið hefur verið upp við aðalinngang skólans og nýtist vonandi vel, bæði nemendum og bæjarbúum. Forseti Íslands gat þess að útikennslusvæði gæti verið eitt af svörunum við krefjandi áskorunum nútímans og hún minnti á mikilvægi kærleikans í skólastarfi.