Fréttir úr skólastarfinu - afmæli skólans þann 1. október, fræðsla, gleði og söngur

Flensborgarskólinn fagnar 143 ára afmæli sínu miðvikudaginn 1. október og verður því dagskráin óhefðbundin þann daginn. Kennt verður í fyrstu þremur tímum með kennslu síðasta tímans á sal skólans. Forseti Íslands mun heiðra okkur með nærveru sinni ásamt fleiri gestum en nemendur fá m.a. fræðslu um mikilvægi góðs svefns og boðið verður upp á tónlist, ís og afmælisköku í tilefni dagsins. Dagskrárlok verða um kl. 12:30 og eftir það fellur öll kennsla niður við skólann.
 
Við minnum enn og aftur á góða ástundun í námi. Það styttist í miðannarmat og það er afar mikilvægt að nemendur skili öllum verkefnum þannig að hægt sé að meta námsframvindu hvers og eins. Í stefnu skólans er m.a. talað um metnaðarfullt skólastarf, öfluga námsmenningu og mikilvægi þess að nemendur læri góð vinnubrögð sem skilar þeim áfram bæði til árangurs í háskólanámi og á vinnumarkaði. Það segir sig því sjálft að það að mæta ekki með námsgögn í tíma eða að mæta alls ekki og skila ekki neinu er algjörlega óásættanlegt. Afleiðingarnar eru alveg skýrar; nemendur sem sýna ekki náminu og/eða kennslunni virðingu eiga á hættu að falla í áföngum, tapa þannig einingum og dragast aftur úr og jafnvel missa skólavist. Að þessu sögðu þá býður skólinn upp á öfluga stoðþjónustu, nemendaráðgjöf og fleira, það er um að gera að nýta sér þau úrræði sem til eru og því fyrr því betra.