Fréttir úr skólastarfinu - ofbeldi er aldrei liðið

Við minnum á ritver skólans, fyrsta tímann í stærðfræði- og raungreinaveri seinnipartinn í dag, jafningjakennsluna sem hefst á morgun í fundarhléi, eða frá kl. 12:35 – 13:35. Kæru nemendur, endilega nýtið ykkur þessa þjónustu. Þarna er hægt að fá stuðning við verkefnavinnu, hjálp við að leysa skiladæmi og fleira.

Verið er að senda út greiðsluseðla fyrir efnisgjald en einstaka áfangar, eins og myndlist og matreiðsla, bera efniskostnað. Þá er einnig verið að senda út efnisgjald á nemendur á íþróttaafrekssviði, en innifalið í gjaldinu er m.a. æfingapeysa, merkt bæði skólanum og nemandanum. Kostnaði þessum er ávallt haldið í lágmarki og er t.a.m. efnisgjald á íþróttaafrekssviði einungis greitt einu sinni á ári, eða í upphafi hvers skólaárs.

Þá er vert að ítreka að Flensborgarskólinn er hnetulaus skóli. Hér eru nemendur með bráðaofnæmi og taka þarf tillit til þess. Ekki er boðið upp á hnetur í mötuneyti skólans og ég bið nemendur um að koma ekki með hnetur í skólann.

Höldum áfram með okkar góða starf. Þessar fyrstu vikur í skólastarfinu hafa einkennst af gleði, spenningi og forvitni og hefur stemningin á göngum skólans verið góð. Verum alltaf góð hvert við annað. Þannig virkar gott skólasamfélag best.