- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Starfsfólk
- Skólaskjár
- Enska
- Leiðbeiningar
Kæru nemendur og foreldrar/forráðamenn
Við vorum öll bleik á þriðjudaginn og sýndum þar með samhug með fjölskyldu Bryndísar Klöru Birgisdóttur, sem lést af sárum sínum um nýliðna helgi, samnemendum hennar í Verzlunarskóla Íslands og starfsfólki. Við erum öll hrygg yfir tíðindum síðustu vikna af alvarlegum ofbeldismálum og ég verð að leggja áherslu á að hér í Flensborgarskólanum er ofbeldi aldrei liðið. Ég bendi einnig á að vopnaburður hvers konar er bannaður samkvæmt lögum og ber ávallt að tilkynna til lögreglu. Við komum ávallt fram við hvort annað af virðingu og væntumþykju og ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur vel reglur skólans og stefnu þar sem lögð er áhersla á hvetjandi og jákvætt umhverfi, kurteisi og góða umgengni. Ég hvet ykkur líka til að kynna ykkur viðbragðsáætlun skólans og upplýsingahnapp um verkferli skólans ef upp koma ofbeldismál, sjá hér. Þá hefur sérstakur póstur verið sendur á alla foreldra nemenda við skólann þar sem farið er m.a. yfir helstu atriði sem hafa forvarnargildi þegar kemur að ungu fólki og líðan þeirra.
Við minnum á ritver skólans, fyrsta tímann í stærðfræði- og raungreinaveri seinnipartinn í dag, jafningjakennsluna sem hefst á morgun í fundarhléi, eða frá kl. 12:35 – 13:35. Kæru nemendur, endilega nýtið ykkur þessa þjónustu. Þarna er hægt að fá stuðning við verkefnavinnu, hjálp við að leysa skiladæmi og fleira.
Verið er að senda út greiðsluseðla fyrir efnisgjald en einstaka áfangar, eins og myndlist og matreiðsla, bera efniskostnað. Þá er einnig verið að senda út efnisgjald á nemendur á íþróttaafrekssviði, en innifalið í gjaldinu er m.a. æfingapeysa, merkt bæði skólanum og nemandanum. Kostnaði þessum er ávallt haldið í lágmarki og er t.a.m. efnisgjald á íþróttaafrekssviði einungis greitt einu sinni á ári, eða í upphafi hvers skólaárs.
Þá er vert að ítreka að Flensborgarskólinn er hnetulaus skóli. Hér eru nemendur með bráðaofnæmi og taka þarf tillit til þess. Ekki er boðið upp á hnetur í mötuneyti skólans og ég bið nemendur um að koma ekki með hnetur í skólann.
Höldum áfram með okkar góða starf. Þessar fyrstu vikur í skólastarfinu hafa einkennst af gleði, spenningi og forvitni og hefur stemningin á göngum skólans verið góð. Verum alltaf góð hvert við annað. Þannig virkar gott skólasamfélag best.