Niðurstöður úr mati ársins á skólastarf

720 nemendur hófu nám við Flensborgarskólann í haust en heildar nemendafjöldi skólans á árinu 2025 var um 660. Nemendum bjóðast fjórar námsbrautir til stúdentsprófs og allir geta bætt einu sviði við brautina sína en boðið er upp á fimm svið á allar brautir. Einnig er boðið upp á nám á starfsbraut, eins árs nám á ÍSAN námsleið auk bæjarbrúar þar sem grunnskólanemendum býðst að taka áfanga á framhaldsskólastigi til eininga samhliða námi. Það er bæði mikilvægt og lögum samkvæmt að fylgjast vel með nemendahópnum, bæði í innra mati og ytra, en í innra mati er fylgst með m.a. mætingu nemenda og námsárangri, líðan í skólanum og ánægju með skólastarfið. Þá eru ýmsar ytri mælingar styðjandi við okkar skólastarf. Skólinn er nú í formlegu ytra mats ferli á vegum ráðuneytisins en við tökum líka þátt í ýmsum rannsóknum, m.a. í svokölluðum Framhaldsskólapúls ár hvert og samkvæmt nýjustu niðurstöðum (vor 2025) má sjá marktækan mun á líðan nemenda og það til betri vegar. Fleiri nemendum líður vel, fleiri eru hamingjusamari og þar eykst ánægjumæling, eða hamingumæling, um tæp 20% frá síðustu könnun.

Þá hafa samkvæmt Skólapúlsinum nemendur okkar meira sjálfsálit að meðaltali en aðrir framhaldsskólanemendur og upplifa sig jafnframt hafa stjórn á eigin lífi og er þar marktækur munur á milli ára. Þá er marktækur munur á kvíða hjá nemendum á milli ára og hann er líka lægri en hjá samanburðarhópnum, þ.e. framhaldsskólanemendum í öðrum skólum. Minna svefnleysi nemenda mælist líka, einelti fer minnkandi á milli ára, áreitni og ofbeldi einnig. Viðhorf og hollusta gagnvart skólanum eykst, nemendur samsama sig við aðra nemendur og rétt tæp 83% eru ánægð með skólann sinn og geta mælt með honum, eru stolt af skólanum og eiga vini í skólanum. Nemendur eru líka, meira en aðrir framhaldsskólanemendur, bundnir formlegum skyldum, í þá annað hvort tómstundum eða íþróttaæfingum og munar þar um fjóra klukkustundir að meðaltali á viku. Þó dregur aðeins saman með okkar nemendum og öðrum framhaldsskólanemendum hvað varðar launaða vinnu, en okkar nemendur hafa hingað til, ár eftir ár, verið yfir meðaltali þegar kemur að fjölda vinnandi klukkustunda með skóla.

Af niðurstöðum Skólapúlsins má líka sjá að hér er hópur nemenda sem samsvarar sér síður við nemendahópinn, á jafnvel enga vini – eða um 10% nemenda. Þó niðurstöður þessa liðs séu á pari við aðra framhaldsskóla þá er vissulega nauðsynlegt að bregðast við með þeim leiðum sem við höfum til að skapa tengsl á milli nemenda og ýta undir að þeir kynnist innbyrðis og upplifi sig tilheyra hópi hér innanhúss. Bekkjarkerfið á fyrsta ári er tæki til þess að efla félagstengslin meðal nemenda því hugmyndin þar er að halda sérstaklega vel utan um tengsl, bekkjaranda, jafningjastuðning og fleira í bekkjum á fyrsta ári. Þetta fyrirkomulag varð til á tímum heimsfaraldurs undir leiðsögn Vöndu Sigurgeirsdóttur og KVAN en hún hefur lengi rannsakað þróun félagstengsla, hegðun ungs fólks og hefur unnið mikið með slíka hluti sem og agamál í skólakerfinu. Hugmyndin er að halda þessu samstarfi áfram á næstu önn og þróa Hámarkið á fyrsta ári enn frekar á nýju ári.

Tvisvar á ári er lögð viðhorfskönnun fyrir nemendahópinn í bekkjarkerfinu þar sem fyrir þau eru lagðar spurningar sem snúa að upplifun þeirra af því að tilheyra bekk. Þar kemur fram að um 88% þeirra eru ánægð í skólanum og líður almennt vel.

Meirihluti nemenda segist eiga auðvelt með að tjá sig í bekknum og yfir 80% telja sig eiga góð samskipti við bekkjarfélaga. Meirihluti nemenda telur góðan vinnufrið ríkja í kennslustundum þó enn sé stór hópur sem telji að gera þurfi betur. Þá koma einnig vísbendingar í könnun meðal nýnema um skort á félagslegum tengslum en um 21% þeirra upplifa að einhver bekkjarfélagi standi utan hópsins. Enn og aftur skapast því þarna tækifæri til að grípa nemendur sem standa höllum fæti félagslega og reyna að efla þau með fyrrgreindum stuðningi, eftir því sem nemendur vilja og geta.

Útskriftarhópur hverrar annar fyrir sig er einnig spurður um upplifun af námi og veru sína í skólanum á námstímanum. Hópurinn sem útskrifaðist nú um áramót svarar þannig að um 70% nemenda eru ánægð með veru sína í skólanum. og flest eru ánægð með þá grunnþjónustu sem skólinn veitir, t.d. mötuneytið, skrifstofuna, bókasafnið, tölvuþjónustuna og fleira. Þau upplifa þó einnig að samstaða meðal nemenda sé ekki nægilega mikil og að gera megi betur í félagslífinu.

Niðurstöður kennslumats fyrir skólaárið eru góðar líkt og undanfarin ár og þegar markmið bæði haust og vorannar eru tekin saman mælast þau öll á starfhæfu bili, rétt undir styrkleikabili (4,13).

Áfram er því skólinn að ná markmiðum sínum í skólastarfinu. Nemendum líður á heildina litið vel, þeir eru ánægðir með samstarf og samskipti við kennara og almennt eru það jákvæð viðhorf sem einkenna skólastarfið. Markmiðin mælast mjög svipuð en að þessu sinni er það markmið eitt sem mælir framlag nemenda, nemendur eru virkir og sýna áhuga (4,19), sem mælist ögn sterkar en hin þó niðurstöður séu afar sambærilegar. Nemendur gefa til kynna að þeir leggi sig fram í áföngum, þeir mæti vel í kennslustundir og líði almennt vel í þeim. Þeir telja kennara bregðast vel við spurningum nemenda og að samskipti þar á milli séu góð. Markmið tvö um fjölbreytta kennsluhætti kemur einnig vel út og mælist 4,1. Nemendum finnast áfangar vel skipulagðir, þeir telja markmið áfanganna vera skýr, kennarinn útskýri námsefnið vel og að verkefnin séu í samræmi við markmið áfanga. Vísbendingar eru um að bæta megi vinnuanda í kennslustundum, að gera megi verkefnin áhugaverðari og að setja megi efni áfanga skýrar fram í INNU. Markmið þrjú sem er að jákvæð viðhorf einkenni skólastarfið mælist 4,1. Nemendur telja kennara bregðast vel við spurningum nemenda, þeim líður almennt vel í kennslustundum og telja leiðréttingar og athugasemdir við verkefni gagnlegar. Flestar athugasemdir frá nemendum snérust um hvort kennari bendi á leiðir til betri árangurs í námi en þar er tækifæri til að gera betur.